Bjarni lagði land undir fót haustið 2019 og sótti námskeið í Bragganum á Flúðum undir stjórn bandaríska bóndans og slátrarans Meredith Leigh. Heima á Bæ 1 hélt vinnan við að gera að svíninu áfram.
Vallhumall (Achillea millefolium)
Hér á Ströndum og þá sérstaklega á og við Drangsnes eru stórar breiður af vallhumli (Achillea millefolium), víða má nálgast upplýsingar um þessa stórkostlegu plöntu sem hefur verið nýtt til lækninga í árþúsundir. Það gladdi mig mikið að finna stóra og fallega vallhumalsbreiðu við fjárhúsin þar sem ég bý. Ég safnaði nokkrum plöntum til þess að nota í te og smyrsl, vallhumallinn fer einnig vel í vasa. Í Kaliforníu sá ég vallhumal víða m.a. í görðum þar sem blómin voru rauð og bleik.

Út á land – af hverju?
Árið er 2020 og tveir áratugir liðnir af nýrri öld – öld sem hefur fært okkur flestum aukin lífsgæði, öld þar sem jarðarbúar eru (sí)tengdir saman í gegnum tölvur og net, öld sem hefur gert okkur kleift að fara óhindrað á milli staða og velja okkur búsetukost allt eftir því hvað okkur hentar hverju sinni; borg, sveit, þorp, eyja, dreifbýli, þéttbýli…. Það er mörgum hrein ráðgáta af hverju og þrátt fyrir að hreyfanleiki milli svæða hefur aukist til muna að þéttbýlið verður þéttara og dreifðari byggðir dreifðari, já eða hreinlega umbreytist í byggð þar sem íbúar dvelja aðeins hluta úr ári (sumarleyfisbyggðir). Þessi sogkraftur borganna er að margra mati eitt stærsta viðfangsefni 21. aldarinnar (sjá t.d. Birch og Wachter) og margar ástæður að baki því að árlega kjósi fleiri og fleiri að færa sig úr stað og flytja í stórborgirnar eða í námunda við þær.
Ég man þegar á ferðalögum fjölskyldunnar um landið á fyrri hluta tíunda áratugarins að foreldrar mínir tilkynntu okkur sem sátum í aftursæti bílsins að við gætum búið hvar sem er og unnið hvaðan sem er. Foreldrar mínir óskuðu sér slíkrar framtíðar fyrir okkur þ.e. að við systkinin ættum þess kost að velja okkur búsetukost, sveitin eða hinar dreifðari byggðir þóttu foreldrum mínum augljóslega ákjósanlegur staður enda einmitt þaðan sem við flest komum. Þessi fullyrðing foreldra minna opnaði augu mín fyrir því að e.t.v. væri það ekki svo galið að setjast að í sveit, kannski einmitt þarna við ána sem rann svo fallega undir fagurgrænu fjallinu á þeim stað sem við ókum framhjá einmitt þegar draumsýn þeirra mömmu og pabba hljómaði í eyrum okkar. Ég ólst upp í litlu sjávarþorpi á Suðurnesjum, langt í frá fámennasta byggðalagi landsins en unglingnum mér þótti þrengja að svo ég fór ég til Reykjavíkur um leið og ég hafði aldur og þroska til. Í Reykjavík upplifði ég yndislegt samfélag í einni af rólegu götunum í gamla Vesturbænum, bjó í þríbýli og í blokk og kynntist fólki sem fylgir mér enn. Núna hef ég búið í þremur borgum í þremur löndum og mér þykir innilega vænt um þessa staði og það sem þeir gáfu mér. Dvölin á þessum stöðum hjálpaði mér að skerpa mína sýn á lífið og afhjúpaði fyrir mér hversu dýrmætt og mikilvægt það er að fjölbreytt búsetuskilyrði standi okkur öllum til boða. Kannski voru það orð foreldra okkar eða reynslan af því að búa á ólíkum stöðum sem varð síðar valdur af því að farþegarnir í aftursætinu, við systurnar, búum báðar í dreifbýli í tveimur af fámennustu sveitarfélögum landsins.
Eftir að hafa kynnst Kaldrananeshreppi þar sem ég hef búið nú í á fimmta ár með sitt litla sjávarþorp Drangsnes við Steingrímsfjörð og gróðursælan Bjarnarfjörð sá ég að þar væri ákjósanlegt að búa. Það er langt í frá auðvelt að taka ákvörðun um að flytja til staðar eins og Kaldrananeshrepps á Ströndum sem eins og önnur sveitarfélög á Vestfjörðum og Norðurlandi Vestra hefur glímt við viðvarandi fólksfækkun í áraraðir. Þú yfirgefur ekki aðeins fjölskyldu og vini heldur einnig möguleika á alls kyns þjónustu sem fyrir löngu er orðin að nánast engu úti á landi. Þó eru kostirnir svo margir og þráin eftir því að búa á einmitt svona stað svo sterk að þú lætur vaða þrátt fyrir allt.
Þú ert að synda á móti straumnum, fara á stað sem fólk er að yfirgefa eða hugsar a.m.k. oft um að yfirgefa og fer svo að lokum þó það óttist að brottför þeirra verði síðasti naglinn í líkkistu staðarins sem hefur barist fyrir tilvist sinni svo lengi sem þú manst eftir þér – samviskubitið nagar og þeir sem taka þessa sársaukafullu ákvörðun vita hvað þetta þýðir fyrir þá sem eftir eru þegar staðurinn er yfirgefinn til þess að fylgja straumnum og fara þangað sem þjónustan er og börnin sem sífellt verða færri og færri í fámenninu. Í óteljandi skipti hef ég þurft að svara fyrir ákvörðun mína, hlusta á úrtölur, áhyggjur yfir því að þarna verði lífi mínu sóað, ég verði einangruð, veðurteppt, snuði börnin mín um alls kyns tækifæri sem eru í boði fyrir sunnan. „Hvernig getur þú búið á svona stað, fyrir norðan hníf og gaffal, úti í rassgati, er þér ekki alltaf kalt, hvað ætlar þú að gera þegar skólinn lokar, þegar allt leggst af…?“ Svarræðan mín er eftir allan þennan tíma þrautþjálfuð, nánast eins og flugfreyjuræða. „Settu súrefnisgrímuna fyrst á þig og síðan á barnið.“ En maður verður þreyttur á því að þurfa að svara fyrir það að vilja fara í öfuga átt við meirihluta landsmanna, ég trúi því varla enn að yfir 80% okkar búi á Suðvestur horninu og enn fjölgar þar, í höfuðborginni og alls staðar á stöðum sem eru í öruggri fjarlægð frá henni. Ég spyr mig líka þeirrar spurningar hvers vegna ákvörðun mín mætir svona sterkri andstöðu, af hverju trúa því svo fáir að lífið geti virkað og verið gott í hinum dreifðari byggðum landsins?
Daglega birtast í fréttamiðlum og á samfélagsmiðlum greinar, ljósmyndir, umfjallanir, beinlínis áskoranir til okkar að hægja á, fljúga minna, dvelja heima, borða mat úr heimahéraði helst eitthvað sem þú ræktar og elur sjálf/-ur, vinna minna, endurnýta, eyða minna, rækta skóga! Vestræn menning, menning neysluhyggjunnar og hraðræðisins er komin í þrot en ein afleiðing þeirrar stefnu sem var tekin fyrir margt löngu í átt að ríkjandi hugmyndafræði sem hefur fengið að þróast og eflast á 21. öldinni er sú að hið smáa er við það að hverfa út af sviðinu – það er ekki pláss fyrir það lengur. Samt er það svo að það að gefa hinu smáa rými, sitt pláss getur – þrátt fyrir óhagkvæmnina sem í því felst – hjálpað okkur að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, orðið ein af lausnunum fyrir okkur sem stöndum ráðvillt, kvíðin og stundum bjargarlaus gagnvart þessum hamförum en í versta falli gert okkur sem þrátt fyrir allt sannarlega viljum og verðum að fá að hlúa að því smáa kleift að gera svo m.a. með því að setjast að í fámennustu sveitarfélögum landsins því þar líður okkur vel og þar viljum við búa.
Þeir sem vilja halda á lofti mikilvægi þess smáa geta gert það með ýmsum hætti; sumir kjósa að versla við kaupmanninn á horninu en aðrir geta tekið meiri áhættu og flutt í fámennið, út á land!